Tíska og hönnun

Kaupir bara það sem honum líkar

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Daði Lár er ekki eini áhugamaðurinn um skó á heimilinu en bæði pabbi hans og bróðir deila áhugamálinu.
Daði Lár er ekki eini áhugamaðurinn um skó á heimilinu en bæði pabbi hans og bróðir deila áhugamálinu. Vísir/Ernir
„Frá því að ég var kominn í þá skóstærð sem ég nota í dag sem var í kringum 2010 hef ég verið að safna skóm. Það má segja að ég hafi fengið áhugann á skóm í vöggugjöf en pabbi sá alltaf til þess að ég og bræður mínir værum í nettum Nike-skóm þegar við vorum litlir, enda er hann sjálfur einlægur Nike-aðdáandi. Sjálfur fór ég að hugsa mikið um skó snemma á unglingsárunum en það voru þá aðallega skór til að nota í körfubolta,“ segir Daði Lár Jónsson, mikill áhugamaður um skó – þá aðallega strigaskó eða „sneakers“ eins og þeir eru oft kallaðir.

Daði Lár fær áhugann eins og hann segir úr körfunni, en hann er leikmaður Keflavíkur auk þess sem faðir hans er Jón Kr. Gíslason, ein af goðsögnum Keflavíkur í körfubolta.

Það leikur enginn vafi á hvaða merki er í uppáhaldi hjá Daða en uppeldið hefur greinilega skilað sér – hann á einungis skó frá Nike í safninu.

Daði segir að hann hafi byrjað safnið sitt á Nike Air Force 1, en um er að ræða þekktustu og vinsælustu skóna frá Nike sem virðast alltaf vera að skjóta upp kollinum sem tískugripur – þó að margir myndu segja þá sígilda. Daði segir að kvikmyndin Notorious, ævisaga rapparans Notorious B.I.G. eða Biggie Smalls, hafi spilað inn í að hann keypti sér fyrstu Air Force skóna.

„Í dag er ég aðallega að safna Lebrons, en hann hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, en skó­lína hans hefur þó dalað síðustu ár og ég er farinn að færa mig meira í Jordans og Kyries,“ segir Daði og á þá við skólínur NBA-leikmannanna Lebron James, Michael Jordan og Kyrie Irving.

 

Uppáhaldspör Daða - Jordan 3 Fire Red, Lebron 9 Summit Lake Hornets og Lebron 8 EntourageVísir/Ernir
Hvað áttu orðið mörg pör og eru einhver sérstök pör í uppáhaldi? 

„Þetta eru rétt undir 80 pörum í dag og svo eru um 50 pör hérna í viðbót sem Dagur Kár bróðir minn á. Mínir uppáhaldsskór hafa alltaf verið Jordan 3 og af þeim fimm litum sem ég á þá eru það Fire red sem eru mér kærastir. Ég hlakka mikið til á næsta ári en þá koma Jordan 3 Black Cement út aftur og þið getið bókað að þeir bætast við safnið.“

Hefur þú einhvern tímann eytt óvenju miklu í eitt par? 

„Ég er alfarið á móti því að yfirborga fyrir skó og þessi endursölumarkaður sem er t.d. í kringum Yeezy-skó er ekki fyrir mig. Ég kaupi það sem mér líkar en ekki það sem er vinsælast. Ég hef alltaf verið duglegur að finna góð kaup á eBay og í outlet-búðum í Bandaríkjunum. Ég hef það nokkurn veginn fyrir reglu að eyða aldrei yfir 250 dollurum í eitt par.“

Daði segist ganga í öllum skónum sínum reglulega. Hann vill njóta þess að nota þá og hefur engan áhuga á að selja þá aftur – en í sneaker-geiranum tíðkast það gjarnan að menn geyma skóna í kössunum eins og safngripi frekar en skófatnað. Hann segist þó eiga eitt par af Nike Flight 1 sem er einungis til sýnis en faðir hans spilaði í skónum „einhvern tímann fyrir aldamótin“.

Þeir sem vilja fylgjast nánar með Daða og þróun safnsins hans geta fylgt honum á instagram @dadilarjonsson en hann er duglegur að henda inn myndum af dýrgripunum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×