Erlent

Sérsveitir Bandaríkjahers aðstoða Filippseyjar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Borgin Marawi á Filippseyjum hefur farið illa út úr árásum vígamanna tengdum hryðjuverkasamtökunum ISIS.
Borgin Marawi á Filippseyjum hefur farið illa út úr árásum vígamanna tengdum hryðjuverkasamtökunum ISIS. Vísir/afp
Sérsveitir Bandaríkjahers hafa verið kallaðar út til að aðstoða filippseyska herinn, sem reynir nú að ná aftur yfirráðum yfir borginni Marawi á suðurhluta Filippseyja. Vígamenn tengdir hryðjuverkasamtökunum ISIS réðust á borgina í síðasta mánuði. Bandaríkjaher er aðeins sagður veita tæknilega aðstoð og berst ekki. BBC greinir frá.

„Þeir eru ekki að berjast. Þeir eru bara að veita okkur tæknilega aðstoð,“ sagði Jo-ar Herrera, yfirmaður í filippeyska hernum um sérsveitir Bandaríkjahers á svæðinu. Þá hafði bandaríska sendiráðið í Manila, höfuðborg Filippseyja, áður staðfest viðveru hersveita frá Bandaríkjunum. Herrera sagði einnig að herliði Filippseyja gengi vel að stöðva framgang vígamannanna í Marawi.

Átök á milli vígamannanna og hersins hófust þann 23. maí síðastliðinn. 13 létust í síðustu átakahrinu en 58 filippeyskra hermanna hafa þá látist í átökunum. Þá hafa 138 vígamenn og 20 almennir borgarar einnig látist. Fjölmargir almennir borgarar hafa setið fastir í borginni í kjölfar átakanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×