Erlent

Trump stefnt fyrir dómstólum vegna spillingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump kemur út úr hóteli sem hann á í Washington-borg. Erlendir ríkiserindrekar eru sagðir skipta við hótelið til að mynda tengsl við forsetann.
Donald Trump kemur út úr hóteli sem hann á í Washington-borg. Erlendir ríkiserindrekar eru sagðir skipta við hótelið til að mynda tengsl við forsetann. Vísir/EPA
Dómsmálaráðherrar Maryland-ríkis og Columbia-svæðis í Bandaríkjunum ætla að stefna Donald Trump forseta fyrir dómstólum. Þeir saka forsetann um að rjúfa embættiseið sinn að stjórnarskráinni með því að þiggja milljónir dollara í greiðslur frá erlendum ríkisstjórnum frá því að hann tók við völdum.

Forsaga málsins er sú að Trump kaus að eiga áfram fyrirtæki sín þegar hann tók við sem forseti í janúar. Synir hans tveir hafa séð um rekstur fyrirtækjanna. Dómsmálaráðherrarnir tveir, sem báðir eru demókratar, saka Trump um að hafa brotið loforð um að halda embættisfærslum sínum og viðskiptahagsmunum aðskildum.

Telja fyrirtæki forsetans mega hagnast á erlendum aðilum

Washington Post segir að í stefnunni segi að Trump hafi gerst sekur um fordæmalaus brot gegn stjórnarskránni og grafið undan bandarísku stjórnkerfi. Samþykki alríkisdómari að stefnan eigi rétt á sér gætu dómsmálaráðherrarnir krafist skattaskýrslna forsetans sem hann hefur fram að þessu staðfastlega neitað að gera opinberar.

Grein stjórnarskrárinnar sem ráðherrarnir tveir telja Trump hafa brotið fjallar um hagnað af greiðslum frá erlendum og innlendum aðilum. Samkvæmt henni er embættismönnum bannað að hagnast á gjöfum eða greiðslum frá erlendum ríkjum.

Telja þeir að Trump brjóti gegn þessu ákvæði með að eiga fyrirtæki áfram sem fái greiðslur frá erlendum ríkjum. Erindrekar erlendra ríkja eru sagðir hafa leitast við að skipta við hótel og önnur fyrirtæki í eigu Trump frá því áður en hann tók við embætti forseta til þess að afla sér tengsla og velþóknun hans.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna lagði nýlega fram greinargerð í öðru sambærilegu máli sem höfðað var í janúar. Þar heldur ráðuneytið því fram að það sé ekki ólöglegt fyrir fyrirtæki í eigu Trump að hagnast á viðskiptum við erlenda aðila á meðan hann er forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×