Erlent

Réttað yfir Bill Cosby í dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bill Cosby.
Bill Cosby. Vísir/EPA

Fyrsti dagur réttarhalda yfir leikaranum og grínistanum Bill Cosby fer fram í dag en hann er ákærður fyrir að hafa byrlað konu og beitt hana kynferðislegu ofbeldi á setri sínu í Pennsylvaníu fyrir 12 árum síðan. 

Konan sem um ræðir er Andrea Constand, segir að Cosby hafi neytt hana til þess að drekka vín og innbyrða töflur til þess að kynferðislega misnota hana í mars eða febrúar árið 2004. Hún lét lögreglu vita af málinu ári síðar en ákæruvaldið lét málið niður falla og komust hún og Cosby þá að samkomulagi.

Cosby sjálfur opnaði hins vegar fyrir rannsókn ákæruvaldsins á ný en hann hefur sagt frá því að hann hafi gefið konum róandi pillur til þess að geta stundað kynlíf með þeim en að hann geri það einungis ef þær vilji það.

Eftir að Constand kom fram með sögu sína hafa 50 aðrar konur einnig komið fram og sagt að Cosby hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi og er Cosby ákærður fyrir tvær nauðganir í viðbót.

Cosby hefur sagt að hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við Constand en að það hafi allt verið með hennar samþykki. Hann ætlar sér ekki að bera vitni fyrir dómi vegna þess að hann vill ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að segja röngu hlutina.

Verði Cosby fundinn sekur í réttarhöldunum getur hann átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi en búist er við því að réttarhöldin geti tekið allt að tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×