Handbolti

Jólabarnið snýr aftur í markið hjá KA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jovan Kukobat.
Jovan Kukobat. Vísir/Valli
KA er búið að finna sér markvörð fyrir átökin í 1. deild karla í handbolta næsta vetur en félagið hefur gert samning við Jovan Kukobat.

KA teflir nú fram eigin liði í handboltanum eftir að félagið dróg sig út úr samstarfinu við Þór. Þórsarar spila hinsvegar áfram undir merkjum Akureyrar og munu liðin mætast í 1. deildinni næsta vetur.

Jovan Kukobat er þrítugur Serbi sem hefur spilað áður handbolta á Akureyri. Kukobat var nefnilega markvörður Akureyrarliðsins tímabilið 2012-13 og 2013-14.

„Allir sem fylgdust með Jovan Kukobat með þegar hann lék með Akureyri vita að þar er á ferðinni frábær markvörður og var einn besti maður Akureyrarliðsins á þessum tíma,“ segir í frétt um komu Jovan Kukobat á heimasíðu KA.

Kukobat var valinn besti leikmaður Akureyrarliðsins tímabilið 2013-14 en eftir það tímabil yfirgaf hann Akureyri og hefur síðan reynt fyrir sér heimalandinu, Serbíu og Ísrael.  

Jovan Kukobat fór í Evrópukeppni með bæði serbneska félaginu HC Vojvodina 2014-15 og ísraelska félaginu Hapoel Ramat Gan 2015-16.

„Þetta eru frábær tíðindi og gríðarlegur styrkur fyrir leikmannahóp KA fyrir komandi tímabil. Jovan hlakkar mikið til að snúa aftur til Akureyrar og biður fyrir kveðjur til gamalla vina og kunningja,“ segir í umræddri frétt um komu Jovan Kukobat.

Það er tekið fram í fréttinni að Jovan Kukobat sé sannkallað jólabarn því kappinn er fæddur í Belgrad 25. desember 1987.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×