Viðskipti innlent

Jón Þorgeir ráðinn framkvæmdastjóri ÍMARK

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Þorgeir Kristjánsson.
Jón Þorgeir Kristjánsson.
Jón Þorgeir Kristjánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ÍMARK. Hann mun hefja störf í ágúst á þessu ári og tekur við af Ástu Pétursdóttur, sem hefur gegnt starfinu síðastliðin þrjú ár og lætur af störfum að eigin ósk.

Jón Þorgeir hefur gegnt stöðu markaðsstjóra Borgarleikhússins frá 2014. Í tilkynningu segir að Jón Þorgeir hafi starfað í leikhúsi um árabil og gegnt ýmsum störfum meðal annars sem hönnuður eða verkefnastjóri og tekið þátt í uppsetningu á annað hundrað leiksýninga.

„Jón Þorgeir er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Þá situr Jón Þorgeir í stjórn Reykjavík Dance Festival og verslunarinnar Indiska.“

Í tilkynningunni segir jafnframt að Hildur Björk Hafsteinsdóttir og Ragnar Gunnarsson hafi verið kosin ný inn í stjórn ÍMARK á aðalfundi félagsins sem fór fram 24. maí síðastliðinn. Hafi þau tekið sæti Kristjáns Schram og Ágústu Hrundar Steinarsdóttur.

„Hildur Björk er markaðsstjóri Símans frá 2014 og sá áður um markaðssetningu á fyrirtækjamarkaði ásamt því að verkefnastýra viðburðum Símans frá 2009. Hún var verkefnastjóri í markaðsdeild Icelandair frá 2006 til 2009. Þar áður starfaði hún við sölu- og markaðsmál hjá Hugviti. Hildur Björk er með BS í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði úr Háskóla Íslands.

Ragnar Gunnarsson er framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Brandenburg og einn af eigendum hennar. Hann hefur unnið í auglýsingageiranum frá 2000 og var meðal annars framkvæmdarstjóri auglýsingastofunnar Fíton frá 2009. Þá var Ragnar framkvæmdastjóri ÍMARK 1998 og formaður SÍA (Samband íslenskra auglýsingastofa) 2011. Ragnar útskrifaðist úr Háskóla Íslands með cand.oecon gráðu með áherslu á stjórnun og markaðsmál 1998.

Stjórn ÍMARK fyrir starfsárið 2017-2018:

Jón Þorgeir Kristjánsson, framkvæmdastjóri ÍMARK

María Hrund Marinósdóttir, formaður ÍMARK

Einar Ben, meðeigandi og framkvæmdastjóri Tjarnargötunnar

Guðjón Guðmundsson, meðeigandi og ráðgjafi hjá Manhattan Marketing

Gunnar K. Sigurðsson, markaðsstjóri Isavia

Hildur Björk Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Símans

Hreiðar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Nóra

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Brandenburgar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×