Innlent

Fleiri hafa fengið vitlausa lyfjaskammta

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Tveggja ára stúlku sem var ávísað röngum lyfjaskammti er að batna, en hún er undir eftirliti á Barnaspítala Hringsins, að sögn móðurinnar.
Tveggja ára stúlku sem var ávísað röngum lyfjaskammti er að batna, en hún er undir eftirliti á Barnaspítala Hringsins, að sögn móðurinnar. Mynd/Sigríður Ákadóttir
„Við fengum tilkynningu um atvikið frá Barnaspítala Hringsins og höfum strax brugðist við,“ segir Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis, og vísar þar í mál tveggja ára stúlku sem var í síðustu viku ávísað ofnæmislyfinu Atarax í margfaldri skammtastærð og Fréttablaðið greindi fyrst frá. Lyfjaskammturinn hefði getað verið banvænn.

„Við sendum erindi á Lyfjastofnun og báðum um að þeir veki athygli lyfsala á því að gæta að því hvort skammtar eru eðlilegir eða ekki. Þá sendum við teymisstjóra rafrænnar sjúkraskrár ábendingu um að það vanti viðvörun í kerfið. Þegar ávísaður skammtur er að einhverju leyti frábrugðinn því sem vant er þá ætti að koma upp viðvörun og með sérstakri áherslu á börn. Ég ímynda mér að viðvörunin gæti verið með þeim hætti að læknirinn sé spurður hvort hann sé viss um að hann ætli að ávísa þessu lyfi í þessum skammti. Það er það sem er hægt að gera að okkar mati, bæta þetta rafræna kerfi,“ segir Anna Björg sem bendir á að mistökin geti verið fleiri og af öðrum meiði.

„Það er líka hægt að fara línuvillt í ávísun lyfja. Við höfum nýlegt dæmi um það. Það hafði engar afleiðingar,“ ítrekar Anna Björg en segir þó að málið hafi verið tilkynnt til Embættis landlæknis.

Þá kom upp áþekkt atvik og í tilviki barnsins á heilsugæslustöð á síðasta ári. „Læknir ávísaði lyfi á barn í röngum skammti. Þá voru einnig valdar töflur í stað mixtúru,“ segir Anna Björg og segir atvikið ekki hafa haft afleiðingar á heilsu þess barns. Fjögur til fimm tilvik hafi verið tilkynnt til landlæknisembættisins á síðustu árum. „Þar var rangt lyf valið eða vitlaust form á lyfseðli. Í þessum tilvikum fóru mistökin líka fram hjá lyfsölum,“ segir Anna Björg. En hver ber ábyrgðina skyldi þetta henda aftur og hafa afleiðingar á heilsu fólks? „Ábyrgðin er tvíþætt. Læknir ber ábyrgð á sinni ávísun en lyfjafræðingur bera líka ábyrgð á því að tryggja að það sé ekkert rangt í lyfjagjöfinni,“ segir Anna Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×