Handbolti

Ýmir Örn: Liðsheildin skilaði þessu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ýmir Örn sýnir Antoni Gylfa Pálssyni hvernig rifið var í treyju hans.
Ýmir Örn sýnir Antoni Gylfa Pálssyni hvernig rifið var í treyju hans. vísir/ernir
„Tilfinningin er auðvitað alveg mögnuð. Ég veit ekki hvað ég á að segja, það var erfitt að vera útaf seinustu átta mínúturnar en þeir bara kláruðu þetta. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Ýmir Örn Gíslason leikmaður Vals í samtali við Vísi eftir sigurinn á FH í dag þar sem Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik.

Valsmenn tryggðu sér sigurinn og Íslandsmeistaratitilinn með mögnuðum seinni hálfleik sem þeir unnu með níu mörkum. Vörnin small saman og Sigurður Ingiberg Ólafsson í markinu fór á kostum.

„Við vorum allt í lagi í fyrri hálfleik en við vissum að við þyrftum að gera betur, vera nær hvor öðrum og hjálpast betur að. Það kom í seinni hálfleiknum. Liðsheildin skilaði þessu, það er ekkert flóknara en það,“ bætti Ýmir Örn við.

Valsmenn enduðu í 7.sæti deildarkeppninnar og mættu stjörnum prýddu liði ÍBV í 8-liða úrslitunum. Þeir voru einnig að berjast í Evrópukeppninni sem lauk á sorglegan hátt eftir dómaraskandal í Rúmeníu í undanúrslitum.

„Ég hafði alltaf trú á þessu. Um leið og við vissum að við ættum ÍBV þá ætluðum við bara að vinna þá. Síðan næst Fram, vinna þá og svo FH núna. Við áttum að fara út á fimmtudag að spila gegn Sporting en við notuðum orkuna í þetta og gerðum okkur að Íslandsmeisturum í staðinn.“

Þetta er í fyrsta sinn í 10 ár sem Valur verður Íslandsmeistari og Ýmir lofaði því að það yrði fagnað vel að Hlíðarenda í kvöld.

„Það verður eitthvað skemmtilegt, við höfum það gaman í kvöld ég veit það allavega,“ sagði Ýmir Örn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×