Viðskipti innlent

Engin ástæða til að bregðast sérstaklega við opnun Costco

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Ég óttast ekkert innkomu Costco enda erum við með önnur tilboð til okkar viðskiptavina,“ segir Valgeir.
"Ég óttast ekkert innkomu Costco enda erum við með önnur tilboð til okkar viðskiptavina,“ segir Valgeir. vísir/pjetur
Engin ástæða er til þess að bregðast sérstaklega við opnun bensínstöðvar Costco enda er Skeljungur vel samkeppnisfær, segir Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs. Fólk kjósi jafnan þjónustu og þægindi fram yfir nokkurra prósenta verðmun.

„Við höfum verið að fylgjast með og stúderað hvernig þeir hafa verið að gera þetta annars staðar og þetta er bara í takt við það sem við áttum von á að þetta yrði,“ segir Valgeir í samtali við Vísi.

Skeljungur rekur einnig Orkuna og Orkuna X og tekur Valgeir fram að eldsneytið sé litlu dýrara á Orkunni X en Costco, þar sem bensínlítrinn er á 185 krónur. Hann er á 169 krónur hjá Costco.

Ódýrt eldsneyti til að lokka fólk inn

„Við teljum að við séum mjög samkeppnisfær og með mjög góð vörumerki. Ég óttast ekkert innkomu Costco enda erum við með önnur tilboð til okkar viðskiptavina,“ segir Valgeir.

„Þeir nota eldsneyti til að draga fólk inn í eitthvað annað en það er ekki bara verð sem ræður för þegar fólk velur eldsneyti eða aðrar vörur. Það eru þægindi og önnur atriði sem vega inn í þá ákvörðun. Ef það væri ekki þannig þá væri bara eitt módel í gangi.“

Verð á hlutabréfum í Skeljungi, Högum og N1 hafa lækkað í morgun eftir að markaðir voru opnaðir. Valgeir segist lítið hafa fylgst með gangi mála í Kauphöllinni og hefur ekki áhyggjur af áframhaldandi lækkun.  

„Hlutabréfaverðið er ekki eitthvað sem stýrir félaginu og við látum það ekki hafa áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum. En tíminn verður að leiða það í ljós hvað verður.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×