Viðskipti innlent

Hátt í 200 milljónir í kassann hjá Costco fyrir opnun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá opnun fyrir boðsgesti í gærkvöldi.
Frá opnun fyrir boðsgesti í gærkvöldi. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Bandaríski verslunarrisinn opnar verslun sína í Kauptúni í dag og er óhætt að segja að töluverð eftirvænting sé hjá stórum hluta landans, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu, með nýju verslunina.

Á sunnudag höfðu 35 þúsund aðildarkort verið seld til einstaklinga og fyrirtækja. Löng röð var í Kauptúni í Garðabæ í gær þar sem fleiri Íslendingar bættust í hópinn.

Brett Vigelskas, framkvæmdastjóri Costco á Íslandi, sagði við Vísi seinni part dags í gær að enn ætti eftir að taka saman fjölda skráninga sem bæst hefðu við. Ekki er óvarlegt að ætla að þær séu farnar að nálgast 40 þúsund.

Einstaklingskort kostar 4800 krónur og fyrirtækjakort 3800 krónur. Stærsti hluti kaupenda er einstaklingar svo Costco hefur þegar fengið tæplega 200 milljónir frá íslenskum neytendum sem ekki eru enn byrjaðir að kaupa vörur. Aðeins þeir sem eiga aðildarkort geta verslað í Costco.

Bensínstöð Costco opnaði á sunnudaginn en til stendur að opna verslunina í dag klukkan 9.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×