Einstaklingarnir voru handteknir í suðurhluta borgarinnar auk þess sem að greint hefur verið frá því að bróðir Salmans Abedi, mannsins sem grunaður er um að hafa framið ódæðið, hafi verið handtekinn í gær.
Amber Rudd, inannríkisráðherra Bretland segir líklegt að Abedi hafi ekki verið einn að verki. Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni og verið er að kanna möguleg tengsl Abedi við ISIS.
Hæsta viðvörunarstig er í gildi í Bretlandi vegna árásarinnar en líklegt þykir að fleiri árásir séu yfirvofandi, því hefur breski herinn verið kallaður út.

Fleiri fórnarlömb nafngreind
Búið er að bera kennsl á tíu af þeim 22 sem létust í árásinni. Þar á meðal eru vinkonurnar Alison Howe og Lisa Lees sem voru staddar í anddyri Manchester Arena tónleikahallarinnar þegar sprengjan sprakk.Voru þær að sækja fimmtán ára dætur sínar sem voru á tónleikum Ariönu Grande en þær komust lífs af.
Hinn 29 ára gamli Martyn Hett lést einnig í árásinni og þá hefur pólska sendiráðið í Bretlandi staðfest að tvær pólskir tónleikagestir létust í árásinni, Angelika og Marcin Klis. Voru þau einnig að bíða eftir dætrum sínum í anddyrinu.
Í nótt var einnig staðfest að hin fimmtán ára gamla Olivia Campbell og hin 32 ára gamla Kelly Brewster létust í árásinni.