Erlent

Duterte hótar neyðarlögum um allar Filippseyjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Hundruð íbúa hafa flúið Marawi eftir að bardagar hófust þar í gær.
Hundruð íbúa hafa flúið Marawi eftir að bardagar hófust þar í gær. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir koma til greina að lýsa yfir herlögum í Filippseyjum eftir árásir vígamanna í suðurhluta landsins. Herlögum var lýst yfir í um þriðjungi ríkisins í gær eftir að um hundrað vígamenn fóru um borgina Marawi og myrtu og rændu fólki. Meðal annars segir forsetinn að vígamennirnir, sem tilheyra Abu Sayyaf og hafa lýst yfir hollustu við Íslamska ríkið, hafi afhöfðað lögreglustjóra Marawi.

„Ég mun ekki hika við að gera hvað sem er til þess að verja filippseysku þjóðina,“ sagði Duterte samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Herinn reynir nú að ná völdum á eyjunni Mindanao og í Marawi þar sem vígamenn hafa tekið fólk í gíslingu og brennt fjölda bygginga.

Duterte segir að herlög sín gætu staðið yfir í allt að ár og að þau yrðu mjög ströng. Öryggissveitir mættu leita á og handtaka fólk án heimildar. Hann líkti lögunum jafnvel við herstjórn Ferdinand Marcos, sem stjórnaði Filippseyjum með harðri hendi í tvo áratugi.

Bardagar blossuðu upp í Marawi í gær eftir að herinn réðst til atlögu í hús þar sem talið var að Isnilon Hapilon, einn af leiðtogum Aby Sayyaf, væri. Yfirvöld Bandaríkjanna segja Hapilon vera einn hættulegasta hryðjuverkamann heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×