Viðskipti innlent

Sbarro opnar tímabundið í Leifsstöð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sbarro opnar í Leifsstöð.
Sbarro opnar í Leifsstöð. Vísir/Pjetur
Veitingastaðurinn Sbarro, sem meðal annars hefur útibú í Kringlunni og Smáralind, hefur verið valinn í tímabundið veitingarými sem sett verður upp í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í sumar.

Þetta er í fyrsta sinn sem Isavia auglýsir eftir aðilum í tímabundið rými en fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis. Útleigutímabil er frá 1. júní 2017 til 20. nóvember 2017 og er stefnt að opnun veitingasölunnar um miðjan júní.

Isavia auglýsti í apríl eftir aðilum til að reka veitingasölu í rýminu sem er á biðsvæði fyrir skiptifarþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Fjórtán aðilar sendu inn umsókn á fyrra stigi og fengu fimm þeirra tækifæri til að skila inn frekari gögnum fyrir valnefnd sem í sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar. Valnefnd þótti Sbarro líklegasti aðilinn til að skila sem bestum árangri að teknu tilliti til auglýstra viðmiða.

Í tilkynningu frá Isavia segir að skiptifarþegum hafi farið fjölgandi undanfarin ár og að þarfir þeirra til afgreiðsluhraða á veitingum séu oft aðrar en þeirra sem hafa viðdvöl í landinu. Þeir dvelji skemur í flugstöðinni og í þjónustukönnunum Isavia hefur komið fram að skiptifarþegum hefur þótt vanta upp á úrval veitingastaða í suðurbyggingu.

Isavia stefnir að því að leigja tímabundin rými út yfir vetrar- og sumartímabil og er stefnt að því að bjóða einnig út verslunarrými yfir vetrartímann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×