Erlent

Fjölskyldu vísað frá borði vegna afmælisköku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjölskyldunni var illa brugðið.
Fjölskyldunni var illa brugðið. Vísir/Skjáskot
Fjölskyldu á leið frá New York til Las Vegas var vísað frá borði flugvélar JetBlue fyrr í mánuðinum. Þau höfðu komið fyrir afmælisköku í farangurshólfi flugvélarinnar og kallaði flugfélagið til lögreglu vegna málsins.

Myndband af lögreglumanninum að ræða við hjónin og börn þeirra tvö hefur verið birt á netinu. Fjölskyldan var sem áður segir á leið til Las Vegas til þess að fagna fertugsafmæli móðurinnar og var afmæliskaka með í för.

Settu þau kökuna í farangurshólfið fyrir ofan sætin. Flugfreyja tjáði þeim að það væri óleyfilegt, geyma ætti kökuna undir sætunum. Segjast þau hafa fylgt þeim fyrirmælum en lent í vandræðum þegar önnur flugfreyja skipti sér af málinu.

Eftir nokkra reikistefnu, þar sem fjölskyldufaðirinn spurði aðra flugfreyjuna meðal annars hvort hún væri drukkin, var lögregla kölluð til.

Á myndbandinu má sjá lögreglumann ræða við fjölskylduna áður en hann ræðir málið við flugfreyjurnar og segir fjölskyldunni að þau þurfi að yfirgefa flugvélina.

Neitaði fjölskyldan að fara frá borði en fulltrúar flugfélagsins létu þá alla farþegana yfirgefa flugvélina. Var fjölskyldunni svo ekki hleypt aftur um borð. Fengu þau flugmiðana endurgreidda og komust þau til Las Vegas daginn eftir.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að fjölskyldan hafi komið afmæliskökunni fyrir í farangurshólfi þar sem neyðarbúnaður er geymdur og að þau hafi neitað að fjarlægja kökuna. Þau hafi svo orðið reið, blótað og efast um hæfni flugliða til þess að starfa í flugvélinni. Eftir að þau hafi neitað að ræða málið við fulltrúa flugfélagsins hafi flugvélin því verið rýmd. Flugstjóri flugvélarinnar hafi metið það svo að fjölskyldan væri ógn við öryggi flugvélarinnar myndi hún fara í loftið með hana innanborðs.

Stutt er síðan myndband af harkalegri meðferð á farþega flugfélagsins United, sem dreginn var út úr vél félagsins, var birt á netinu. Skömmu seinna bárust fregnir af því að pari á leið til Costa Rica til að gifta sig hafi verið vísað frá borði í Houston. Þá lentu hjón með tvö börn á leið frá Hawaii til Los Angeles í vandræðum um borð í vél Delta á dögunum vegna ágreinins um sæti sem þau höfðu keypt fyrir eldri son sinn.


Tengdar fréttir

Starfsmanni American Airlines vikið úr starfi vegna barnavagns

Farþegi, sem náði eftirköstum atviksins á myndband, sagði að starfsmaður American Airlines hefði hrifsað barnavagninn með offorsi úr höndum móður, sem var einnig farþegi í flugvélinni, og næstum hæft barn hennar.

Hjónum með tvö ung börn vísað frá borði og hótað fangelsisvist

Maður frá Suður-Kaliforníu segir að hann og fjölskylda sín hafi verið rekin úr flugvél flugvélagsins Delta eftir að þau neituðu að gefa af hendi sæti sem tveggja ára sonur þeirra var í, en sætið hafði upprunalega verið keypt fyrir son þeirra á unglingsaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×