Erlent

Faldi sig í helli eftir að hafa reynt að klifra Everest án leyfis

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Marga dreymir um að komast upp á tind Everest.
Marga dreymir um að komast upp á tind Everest. Vísir/Getty
Karlmaður er í haldi yfirvalda í Nepal eftir að hann gerði tilraun til þess að klífa Everest, hæsta fjall veraldar, án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Hann segir að komið hafi verið fram við sig eins og morðingja. BBC greinir frá.

Hver sá sem vill klifra Everest þarf að greiða andvirði ellefu þúsund dollara, eða um eina milljón króna, til yfirvalda í Nepal sem reyða sig mjög á tekjur sem verða til vegna þeirra sem vilja komast á tind Everest.

Maðurinn, Suður-Afríku búið að nafni Sean Davy, segist hafa komist upp í 7.300 metra hæð áður en að yfirvöld höfðu hendur í hári hans. Var hann búinn að útbúa sínar eigin grunnbúðir í helli, skammt frá hinum hefðbundnu grunnbúðum fjallsins. Segja yfirvöld að hann hafi útbúið búðirnar í hellinum til þess að komast hjá því að tekið yrði eftir honum.

Sjaldgæft er að fjallgöngumenn reyni að klífa tind Everest einir síns liðs en flestir hafa í það minnsta með sér leiðsögumann sem og vel búið teymi í grunnbúðunum.

Davy kvartar sjálfur yfir þeirri meðhöndlum sem hann hefur fengið. Hann segir að yfirvöld hafi komið fram við sig eins og morðingja. Yfirvöld hafa tekið af honum vegabréfið og sent hann til höfuðborgarinnar Kathmandu þar sem hann má búast við því að greiða háa sekt og mögulega afplána fangelsisdóm.

Hann segir að hann hafi einfaldlega ekki haft efni á leyfinu en ekki viljað snúa aftur, enda kominn alla leið til Nepal. Hann hafi því ákveðið að reyna að komast einn upp á Everest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×