Erlent

Sessions segir það forgangsmál að handtaka Assange

Atli Ísleifsson skrifar
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir það nú forgangsmál hjá ráðuneytinu að handtaka Julian Assange, forsprakka Wikileaks.

Í kosningabaráttu sinni fór Donald Trump forseti margsinnis fögrum orðum um uppljóstrunarsíðuna Wikileaks en það var hún sem birti tölvupósta áhrifamanna úr stuðningsliði Hillary Clinton sem komu henni illa í baráttunni.

Trump sagði til að mynda oftar en einu sinni að hann elskaði Wikileaks. En tónninn í ráðherrum í ríkisstjórn Trump varðandi Wikileaks er hins vegar allt annar.

CNN greinir frá því að búið sé að skrifa upp ákæruskjal á hendur Assange, sem enn er lokaður inni í sendiráði Ekvadors í London þar sem hann hefur verið síðustu ár til að sleppa við að verða framseldur til Svíþjóðar þar sem hann hefur verið kærður fyrir nauðgun.

Á fundi í Texas í gær sagði Sessions að handtaka Assange sé ofarlega á forgangslista ráðuneytisins.

Assange hefur verið til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum í það minnsta síðan 2010, að því greint er frá í breska blaðinu The Guardian, eða frá því Wikileaks birtu sendiráðsskjölin svokölluðu sem vörpðuðu ljósi á samsktipti sendiráðsstarfsmanna Bandaríkjanna víða um heim og ollu miklu fjaðrafoki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×