Viðskipti innlent

Tjón WOW yfir 100 milljónir

Benedikt Bóas skrifar
Kostnaðarsamt óhapp varð í óveðri.
Kostnaðarsamt óhapp varð í óveðri. vísir/vilhelm
„Það er ekki búið að taka saman hversu mikið tjónið er en ég get sagt að kostnaður verður yfir 100 milljónir króna,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, en ein af þremur Airbus A330 breiðþotum flugfélagsins skemmdist eftir að farangursvagn frá IGS, dótturfélagi Icelandair, fauk á hana í óveðrinu á annan í páskum.

Vegna atviksins varð keðjuverkun þannig að fjölmargir farþegar komust ekki til Íslands á réttum tíma og munu síðustu farþegarnir lenda í dag.

Flugfélagið þurfti að leigja 529 sæta tveggja hæða breiðþotu til að koma strandaglópunum til landsins.

Svanhvít segir að starfsfólk WOW air sé búið að vinna hörðum höndum að því að leysa málin síðan flugvélin skemmdist. „Fjöldi starfsfólks WOW air hefur unnið í þessu máli, dag og nótt síðustu daga. Starfsfólk okkar hefur eftir fremsta megni reynt að koma farþegum til landsins sem fyrst en þetta hefur verið erfitt og flókið mál.“

Lokið var við viðgerð og yfirferð breiðþotu WOW í morgun og mun vélin hefja áætlunarflug síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×