Erlent

Níu þúsund lögreglumönnum vikið úr starfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá handtökunum í dag.
Frá handtökunum í dag. Vísir/AFP
Yfirvöld í Tyrklandi hafa vikið rúmlega níu þúsund lögreglumönnum úr starfi vegna meintra tengsla við Gulen-hreyfinguna svokölluðu. Fyrr í dag voru rúmlega þúsund lögreglumenn handteknir vegna sömu ástæðu. Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, segir að farið hafi verið í þessar aðgerðir vegna þjóðaröryggis.

Hann segir stuðningsmenn Fethullah Gulen hafa komið sér fyrir innan lögreglunnar og að aðgerðin standi enn yfir.

Tyrkir saka Gulen, sem er í útlegð í Bandaríkjunum, hafa skipulagt valdarán sem reynt var í sumar. Hann hefur neitað þeim ásökunum. Um 40 þúsund manns hafa verið handteknir og rúmlega 120 þúsund hefur verið vikið úr starfi. Þar á meðal eru hermenn, lögreglumenn, kennarar, dómarar, embættismenn og fleiri.

Rúm vika er síðan naumur meirihluti kjósenda kaus að veita Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, umtalsverð völd. Reuters fréttaveitan segir tyrknesku þjóðina vera skipta og að gagnrýnendur Erdogan óttist að ríkið færist nær einræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×