Erlent

Árásarmanninum í Stokkhólmi var áður vísað úr landi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fjölmenni minntist látinna á götum Stokkhólms.
Fjölmenni minntist látinna á götum Stokkhólms. Nordicphotos/AFP
Búið var að vísa hinum 39 ára Úsbeka, Rakhmat Akilov, sem játaði í gær að hafa framið hryðjuverkaárásina í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, á föstudag, úr landi. Umsókn hans um dvalarleyfi hafði verið hafnað. Frá þessu greindi sænska lögreglan á blaðamannafundi í gær en maðurinn er nú í haldi lögreglu.

Líkt og í Nice í Frakklandi og Berlín í Þýskalandi í fyrra ók árásarmaður vöruflutningabíl inn í hóp fólks. Í þessu tilfelli var ekið inn í verslun Åhléns í miðborg Stokkhólms.

Þá var annar maður handtekinn og er hann einnig grunaður um aðild að árásinni. Lögregla sagði hann liggja undir grun um að hafa framið hryðjuverk en Reuters greindi frá því að maðurinn lægi undir minni grun en Akilov.

Akilov sótti um dvalarleyfi árið 2014 en eins og áður segir var umsókn hans hafnað. Í desember síðastliðnum fékk hann fjögurra vikna frest til að koma sér úr landi. Þá hvarf hann og hafði lögregla leitað hans vikum saman.

Samkvæmt lögreglu hafði hann lýst yfir stuðningi við hryðjuverkasamtök á borð við Íslamska ríkið. Þá greindu sænskir fjölmiðlar frá því að hann ætti vini í samtökunum Hizb ut-Tharir og lýst sjálfum sér í atvinnuviðtali sem sprengjusérfræðingi.

Expressen greindi frá því í gær að Akilov hefði játað glæpinn. Þá hefði hann sagt við lögreglumenn að hann væri ánægður með það sem hann hefði gert og það hafi heppnast vel.

Alls létust fjórir í árásinni. Tveir Svíar, einn Breti og einn Belgi. Fimmtán særðust.

Maður var stöðvaður í miðborg Oslóar um helgina þar sem hann var gangandi með sprengju í kassa. Norska öryggislögreglan hefur nú tekið yfir rannsókn þess máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×