Erlent

Milljónir manna í hættu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Flóttafólk frá S-Súdan á leið til Úganda.
Flóttafólk frá S-Súdan á leið til Úganda. Vísir/Getty
Hungursneyð ríkir nú í Suður-Súdan og að auki eru Jemen, Nígería og Sómalía á barmi hungursneyðar. Ástandið er það versta frá stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmum 70 árum, segir í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi sem hefur í dag neyðarsöfnun fyrir vannærð börn á þessum stöðum.

„Þegar hafa fjölmargir hér á landi stutt við neyðaraðgerðir UNICEF í Suður-Súdan og það veitir okkur von að finna þann mikla stuðning. Þar sem hungursneyð vofir nú yfir í þremur ríkjum til viðbótar höfum við ákveðið að blása til sérstakrar neyðarsöfnunar til að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Nærri 1,4 milljónir barna eru í lífshættu í löndunum fjórum og gætu dáið af völdum alvarlegrar vannæringar. Alls ógnar hungursneyð nú lífi allt að 20 milljóna manna. Hægt er að styrkja söfnunina með því að senda sms-ið BARN í nr. 1900 og verða þá gjaldfærðar 1.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×