Erlent

Segir Þýskaland ekkert skulda Bandaríkjunum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Donald Trump Bandaríkjaforseti að loknum fundi sínum í Washington fyrir helgi.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Donald Trump Bandaríkjaforseti að loknum fundi sínum í Washington fyrir helgi. VÍSIR/EPA
Ursula von der Layen, utanríkisráðherra Þýskalands, segir ekkert hæft í því að Þýskaland eða önnur Evrópuríki skuldi Bandaríkjunum og NATO stórfé fyrir varnir.

„Það er enginn skuldareikningur í NATO,“ sagði hún. „Það er rangt að tengja tveggja prósenta markmiðið í útgjöldum til landvarna, sem við ætlum að ná um miðjan næsta áratug, eingöngu við NATO.“

Hún sagði varnarútgjöld einnig ná til friðargæslustarfs og baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Þarna var hún að svara Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem hefur ítrekað sagt að evrópsku NATO-ríkin skuldi Bandaríkjunum. Það sé vegna þess að Bandaríkin verji miklu meira fé til varnarmála en þau.

Á laugardaginn tók Ivo Daalder, fyrrverandi fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá NATO, í sama streng og sagði að Bandaríkjunum væri frjálst að verja eins miklu fé og þau vilja til varnarmála.

Hann sagði að önnur NATO-ríki þurfi ekkert að greiða Bandaríkjunum fyrir það sem þau ákveða að verja til varnarmála: „Því miður, herra forseti, þannig virkar NATO ekki,“ sagði Daalder.

Trump endurtók fullyrðingar sínar um skuldir Evrópuríkja við Bandaríkin í Twitter-færslum á föstudag, fljótlega eftir að hann hafði hitt Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Washington.

„Þýskaland skuldar NATO og Bandaríkjunum stórfé fyrir þær öflugu og afar dýru varnir sem þau veita Þýskalandi,“ skrifaði Trump.

Forseti Bandaríkjanna virðist samkvæmt þessu hafa afar takmarkaðan skilning á því hvernig fjármögnun Atlantshafsbandalagsins er háttað. Fundurinn með Merkel virðist ekki hafa bætt þar neitt úr.

Í kosningabaráttunni gagnrýndi hann Evrópuríki ítrekað fyrir að veita ekki nægilega mikið fé til varnarmála. Bandaríkin verji mun meira fé og standi í raun að stórum hluta undir kostnaði við varnir Evrópulanda.

Að loknum fundinum með Merkel­ á föstudag sagði hann: „Ég ítrekaði við Merkel kanslara bæði að ég styð NATO sterklega og að bandamenn okkar í NATO þurfi að greiða sanngjarnan hluta af kostnaðinum við varnarmál.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×