Erlent

FBI segir ekkert styðja ásakanir Trumps

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Comey og Rogers á fundi leyniþjónustunefndarinnar.
Comey og Rogers á fundi leyniþjónustunefndarinnar. vísir/afp
James Comey, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar FBI, segir að hvorki FBI né bandaríska dómsmálaráðuneytið hafi neinar upplýsingar sem geti staðfest ásakanir Donalds Trump forseta um að Barack Obama, forveri hans í embættinu, hafi látið hlera síma Trumps.

Comey staðfesti enn fremur að forseti Bandaríkjanna hafi enga heimild til að fyrirskipa hleranir.

Þetta sagði Comey í yfirheyrslum hjá leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Hann staðfesti einnig, í fyrsta sinn opinberlega, að hjá FBI stæði yfir rannsókn á því hvort einstaklingar á kosningaskrifstofum Trumps hefðu verið í tengslum við Rússland. Jafnframt væri rannsakað hvort lögbrot hefðu verið framin í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári.

Michael Rogers, yfirmaður Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, var einnig í yfirheyrslu hjá sömu þingnefnd í gær. Hann sagðist þar sammála yfirlýsingum bresku leyniþjónustunnar um að það væri „algerlega fáránlegt“ og „tóm della“ að leyniþjónustan hefði tekið þátt í að hlera Trump.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×