Erlent

Sanders hjólar í Trump: „Hann lýgur til þess að grafa undan undirstöðum lýðræðis í Bandaríkjunum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump og Bernie Sanders.
Donald Trump og Bernie Sanders.
Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders, sem keppti við Hillary Clinton um útnefningu Demókrata vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í fyrra, er í ítarlegu viðtali við breska blaðið Guardian í dag. Þar hjólar hann í Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og segir hann sjúklegan lygara sem sé að ýta Bandaríkjunum í áttina að því að verða einræðisríki.

„Trump lýgur stanslaust og ég held að það sé engin tilviljun heldur er ástæða fyrir því. Hann lýgur til þess að grafa undan undirstöðum lýðræðis í Bandaríkjunum,“ segir Sanders í viðtalinu við Guardian.

Hann varar við því að ítrekaðar árásir Trump á fjölmiðla, dómstóla og aðrar lykilstofnanir í bandarísku samfélagi séu einmitt til þess fallnar að grafa undan lýðræðinu.

Trump hefur nú verið við völd í 50 daga og á þeim stutta tíma hefur hann byrjað að vinda ofan af úrbótum Barack Obama á bandaríska heilbrigðiskerfinu, hann hefur bannað fólki frá ákveðnum löndum að heimsækja Bandaríkin og þá hefur hann hafið endurskoðun á stefnu Bandaríkjanna varðandi ýmsa viðskiptasamninga og í umhverfismálum.

Sanders segir að lygar Trump séu úthugsaðar þar sem hann ljúgi um fjölmiðla, dómara og jafnvel dragi sjálft kosningaferlið í efa. Markmiðið sé að koma þeim skilaboðum til Bandaríkjamanna „að það sé aðeins ein manneskja í Bandaríkjunum sem standi með bandarísku þjóðinni, sem segir satt, og að eina manneskjan sem geti gert eitthvað rétt sé forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.“

Til að undirstrika mál sitt ber Sanders Trump saman við George Bush, seinasta Repúblikanann til að gegna embætti forseta á undan Trump.

„George Bush var mjög íhaldssamur forseti og ég var á móti honum í hvert einasta skipti en hann hafði í heiðri bandarísk, pólitísk gildi,“ segir Sanders sem kallar eftir mikilli andstöðu við Trump sem hann segir að sé nú reyndar þegar byrjuð. Aðeins þannig verði hægt að koma í veg fyrir að forsetinn hrifsi til sín meiri völd en hann hefur nú þegar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×