Erlent

Farið fram á afsögn 46 ríkissaksóknara

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jeff Sessions og Donald Trump.
Jeff Sessions og Donald Trump. Vísir/Getty
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur farið fram á það við þá 46 ríkissaksóknara sem eftir sitja frá valdatíð fyrri stjórnar að þeir segi af sér. Reuters greinir frá.

Ríkissaksóknarar eru skipaðir í embætti af stjórnmálamönnum og því ekki óvanalegt að þeim sé skipt út þegar skip er um stjórn. Það þykir þó koma á óvart að ríkisstjórn Trump vilji skipta þeim flestum út á einu bretti.

Nokkurrar reiði gætir vegna þess hvernig staðið var að tilkynningunni. Aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Dana Boente, var byrjuð að láta hvern og einn vita af ákvörðum stjórnar Trump þegar tilkynning þess efnis barst frá dómsmálaráðuneytinu.

Eru sumir þeirra sem voru beðnir um að segja af sér ósáttir við að hafa lesið um það í fjölmiðlum. Meðal þeirra sem beðinn var að segja af sér er Preet Bharara, ríkissaksóknari á Manhattan sem Trump hafði áður persónulega beðið um að starfa áfram.

Þá hefur Trump hringt í tvo saksóknara sem beðnir voru um að segja af sér og beðið þá um að vera áfram í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×