Erlent

Styrkur koltvísýrings setur áfram met

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólin skín yfir Mauna Loa þar sem mælingar á styrk koltvísýrings í andrúmslofti fara fram.
Sólin skín yfir Mauna Loa þar sem mælingar á styrk koltvísýrings í andrúmslofti fara fram. Vísir/Getty
Sú aukning sem hefur orðið á styrk koltvísýrings í lofthjúpi jarðar síðustu tvö árin er fordæmalaus í tæplega sextíu ára sögu beinna mælinga, að sögn bandarísku Haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA).

Hraði aukningar gróðurhúsalofttegundarinnar síðasta áratuginn er nú hundrað til tvö hundruð sinnum meiri en þeirrar sem átti sér stað þegar jörðin kom út úr síðustu ísöld fyrir um 12.000 árum.

Mælingar NOAA á Mauna Loa-fjalli á Havaí sýna að styrkur koltvísýrings óx um þrjá hluta af milljón (ppm) í fyrra og var 405,1 ppm. Aukningin í fyrra jafnaði met sem sett var árið áður samkvæmt frétt á vef NOAA.

Þessi aukning um 6 ppm frá 2015 til 2017 hefur aldrei sést áður frá því að mælingar á Mauna Loa hófust fyrir 59 árum. Árið í fyrra var það fimmta í röð sem styrkur koltvísýrings jókst um 2 ppm eða meira.

Gróðurhúsalofttegundir sem menn hafa dælt út í lofthjúpinn með notkun sinni á jarðefnaeldsneyti valda þeirri hnattrænu hlýnun sem nú á sér stað á jörðinni. Styrkur koltvísýrings að heimsmeðaltali náði 400 ppm í fyrsta skipti árið 2015. Það er 43% aukning á styrk hans frá því fyrir iðnbyltingu.

Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar var um 280 ppm að meðaltali frá því fyrir um 10.000 árum þangað til iðnbyltingin hófst í kringum árið 1760.

Súlurit sem sýnir árlegan vöxt koltvísýrings á Mauna Loa-athugunarstöð NOAA á Havaí.Mynd/NOAA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×