Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum íhuga nú að tvöfalda fjölda bandarískra hermanna í Sýrlandi. Undirbúningur stendur nú yfir fyrir mögulegar áætlanir um að senda þúsund hermenn til að styðja við sóknina gegn Raqqa, höfuðvígis Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Nú þegar eru um þúsund hermenn í Sýrlandi, en flestir þeirra hafa það hlutverk að aðstoða og þjálfa meðlimi Syrian Democratic Forces, bandalags sýrlenskra Kúrda og Araba.
Þá voru hermenn sendir fyrr í mánuðinum til Manbij og norður af Raqqa. Allt í allt eru um 500 sérsveitarmenn að vinna með SDF. Þá munu um 200 landgönguliðar styðja sóknina gegn Raqqa með stórskotavopnum og um 250 meðlimir 75. Ranger herdeildarinnar voru sendir til Manbij.
Sjá einnig: Bandaríkin fjölga hermönnum í Sýrlandi
Samkvæmt heimildum Washington Post myndu hermennirnir sem unnið er að því að senda til Sýrlands ekki taka beinan þátt í átökum þar, en ástandið í norðurhluta Sýrlands er þó mjög flókið þar sem fjölmargar fylkingar athafna sig á svæðinu.
Tilgangur hermannanna í Manbij er að verja SDF gegn árásum frá Tyrkjum eða stjórnarher Sýrlands, eða öllu heldur að koma í veg fyrir slíkar árásir með því að stinga bandaríska fánanum í jörðina.
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafði sagt að ekki mættu vera fleiri en um 500 bandarískir hermenn í Sýrlandi. Nýjasta vendingin er þó liður í nýrri áætlun Donald Trump, núverandi forseta, gegn Íslamska ríkinu. Fjölgunin hefur þó ekki verið staðfest enn, en verið er að undirbúa hana.
Erlent