Körfubolti

Magnaðir átta dagar Elvars: Valinn besti leikmaður deildarinnar og kominn í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson hefur átt algjörlega geggjaða átta daga í bandarísku háskólakörfunni sem toppaði í gær.

Elvar átti enn og aftur stórleik fyrir Barry-háskólann þegar liðið vann Florida Tech, 87-84, í átta liða úrslitum úrslitakeppni Sunshine State-deildarinnar en það sem meira er var hann valinn besti leikmaður deildarinnar.

Deildin greindi frá því á heimasíðu sinni í gær hverjir eru í úrvalsliðunum og hverjir eru bestu leikmenn hennar og þar trónir íslenski landsliðsmaðurinn á toppnum.

Elvar Már leiddi Barry-háskólann til 21 sigurleiks, þar af þrettán innan deildarinnar en liðið tapaði aðeins fimm leikjum. Hann skoraði að meðaltali 16,5 stig í leik og gaf 7,8 stoðsendingar

Þetta er annað árið í röð sem leikmaður Barry er útnefndur besti leikmaður deildarinnar en Elvar er annar leikmaðurinn í sögunni sem verður bæði nýliði ársins og leikmaður ársins í Sunshine State-deildinni. Hann var útnefndur nýliði ársins í fyrra.

Elvar Már hélt upp á verðlaunin með enn einu stórleiknum í nótt þegar Barry komst í undanúrslitin. Hann skoraði 20 stig, tók átta fráköst og gaf ellefu stoðsendingar í sigrinum á Florida Tech. Barry var átta stigum undir þegar sex og hálf mínúta var eftir en komst yfir með 14-0 spretti.

Þessir draumadagar Elvars byrjuðu fyrir rétt rúmri viku síðan þegar hann skoraði 27 stig og gaf tíu stoðsendingar í sigri á Florida Southern en með sigrinum tryggði liðið sér sigur í deildinni. Hann var valinn varnarmaður vikunnar og skoraði svo 37 stig og gaf níu stoðsendingar í lokaumferðinni.

Elvar og félagar mæta Palm Beach Atlantic í undanúrslitunum.


Tengdar fréttir

Frábær vika hjá Elvari varð ennþá betri

Er hægt að spila betur en Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson gerði með Barry-háskólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum í síðustu viku? Það er í það minnsta ekki á færi allra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×