Erlent

Forsætisráðherra Kína varar við efnahagslegum og pólitískum umbrotum á heimsvísu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Forsætisráðherrann hélt stefnuræðu sína á þingi kínverska ríkisins í gær.
Forsætisráðherrann hélt stefnuræðu sína á þingi kínverska ríkisins í gær. Vísir/afp
Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, segir að líkur séu á töluverðum efnahagslegum og pólitískum umbrotum í heiminum á næstu árum. Hann virðist hafa að miklu leyti beint orðum sínum að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Guardian greinir frá.

Forsætisráðherrann hélt stefnuræðu sína á þingi kínverska ríkisins í gær. Þar sagði hann að Kína yrði að vera undir það búið að takast á við „flókna og alvarlegaa stöðu“ í heimsmálum.

„Það ríkir mikil óvissa um hvaða stefnu stærstu hagkerfi heims muni taka og hvaða áhrif það muni hafa. Þeir þættir sem skapa óvissu og óstöðugleika fara vaxandi,“ sagði Keqiang sem verið hefur forsætisráðherra frá árinu 2013.

Líklegt er talið að Keqian hafi beint orðum sínum að Donald Trump sem kallað hefur Kína óvin Bandaríkjanna. Hefur hann hótað því að taka mun harðari afstöðu gagnvart viðskiptum við Kína en forverar sínir. Óttast er að þessi afstaða geti þróast yfir í milliríkjadeilu á milli þessara tveggja ríkja, stærstu hagkerfa heimsins.

Forsætisráðherra Kína lagði áherslu á að Kína myndi standa gegn einangrunarhyggju í alþjóðamálum og leggja áherslu á aukin samskipti og hnattvæðingu. Rímar þetta illa við áherslur Trump sem vill að Bandaríkin verði sjálfstæðari en áður í efnahagsmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×