Erlent

Fyrrverandi yfirmaður njósnamála segir Trump ekki hafa verið hleraðan

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
James Clapper.
James Clapper. Vísir/EPA
James Clapper, fyrrverandi yfirmaður njósnamála í Bandaríkjunum, segir að það sé fráleitt að halda því fram að leyniþjónustan eða alríkislögreglan hafi látið hlera turn Donald Trump, fyrir forsetakosningarnar í nóvember síðastliðnum. BBC greinir frá.

Clapper var yfirmaður njósnamála á þeim tíma sem Trump hefur haldið því fram að hann hafi verið hleraður. Hann segir að ekkert slíkt hafi komið inn á borð til sín á þeim tíma.

„Það var ekkert um slíkar hleranir eða skipanir tengdar þeim sem beindust gegn forsetaframbjóðandanum á sínum tíma, né heldur gagnvart framboði hans.“

Clapper tekur fram, að sem yfirmaður leyniþjónustunnar, hafi dómsúrskurður sem til þyrfti til þess að framkvæma hleranir á almennum borgurum, ekki getað farið fram hjá honum.

Hvorki Trump, né nokkur úr starfsliði hans hefur enn sem komið er lagt fram gögn sem geta stutt fullyrðingar forsetans, sem hann tísti á Twitter, klukkan hálf sex á laugardagsmorgni að staðartíma. Talsmaður Obama neitaði ásökununum samdægurs í gær en þrátt fyrir það hefur forsetinn kallað eftir því að málið verði rannsakað af þinginu.

Talið er víst að forsetinn sé með þessu að reyna að dreifa athyglinni frá tengslum meðlima innan ríkisstjórnar hans við Rússa en fyrir nokkrum dögum varð dómsmálaráðherrann Jeff Sessions, að segja sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, eftir að í ljós kom að hann hafði átt í samskiptum við rússneska ráðamenn en Sessions sagði undir eiðstaf að það hefði hann ekki gert. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×