Erlent

Trump bálreiður og vonsvikinn vegna Sessions málsins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti forseta.
Donald Trump hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti forseta. Vísir/EPA
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er bæði vonsvikinn og reiður út í starfslið sitt eftir þá athygli sem mál dómsmálaráðherrans Jeff Sessions, hefur fengið. Hann er sérstaklega pirraður yfir því að málið hafi eyðilagt þá jákvæðu athygli sem hann fékk eftir stefnurræðu sína á bandaríska þinginu. 

Upp komst um það á dögunum að Sessions hefði tvisvar fundað með sendiherra Rússlands á meðan að kosningabaráttu Trump stóð sem hæst en málið er litið alvarlegum augum, þar sem Sessions hafði sagt þingnefnd bandaríska þingsins að hann hefði ekki átt í neinum samskiptum við Rússa.

Hann varð því að segja sig frá rannsókn alríkislögreglunnar á tölvuárásum Rússa á bandarískar stofnanir í aðdraganda kosninganna í nóvember.

Sjá einnig: Sessions segir sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku kosningunum

Samkvæmt heimildum CNN hefur Trump aldrei verið eins æfur út í starfslið sitt, sem hann sakar um að hafa ekki sinnt starfi sínu vegna þeirrar athygli sem mál Sessions hefur fengið. Talið er að hann sé sérstaklega reiður vegna þess að einungis fyrir örfáum dögum upplifði forsetinn í fyrsta skipti jákvæða athygli meirihluta fjölmiðla fyrir ræðu sína á bandaríska þinginu.

Talið er að Trump hafi látið starfslið sitt í Hvíta húsinu heyra það á föstudaginn, áður en hann hélt til Flórída, þar sem hann eyðir tíma sínum um helgina. Á laugardagsmorgni notaði Trump svo tækifærið og sakaði Barack Obama um að hafa hlerað sig og telja margir það hafa verið tilraun til að dreifa athyglinni frá máli Sessions.

Trump er mikið niðri fyrir um þessar mundir, vegna þess að hann telur að hann fái ekki þá viðurkenningu sem hann á skilið fyrir tíma sinn í embætti forseta. Hann sé orðinn þreyttur á því að „verða fyrir nýjum áföllum í hverri viku.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×