Erlent

Trump undirritar nýtt ferðabann

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað nýja tilskipun sem bannar ríkisborgurum sex ríkja að ferðast til Bandaríkjanna. Ferðabannið, sem tekur gildi 16. mars næstkomandi, nær til fólks frá Íran, Líbíu, Sýrlandi, Sómalíu og Jemen.

Fyrra ferðabann náði til sjö ríkja, þar sem meirihluti íbúa eru múslimar, en Írak hefur nú verið tekið út af listanum. Það mun gilda í níutíu daga, eða þrjá mánuði, en flóttafólki verður meinað að koma til Bandaríkjanna í 120 daga. Fyrri tilskipunin kvað á um ótímabundið bann við ferðalögum sýrlenskra flóttamanna til Bandaríkjanna.

Lögbann var sett á fyrra ferðabann Trump fyrir rúmum mánuði, en hann boðaði nýja tilskipun um leið. Fyrri tilskipunin var undirrituð 27 .janúar síðastliðinn og tók gildi þann sama dag og skapaðist í kjölfarið mikil ringulreið á flugvöllum víða um heim. Nýja tilskipunin felur í sér tíu daga fyrirvara. Þá mun nýja ferðabannið ekki ná til fólks sem er með atvinnu- eða dvalarleyfi í Bandaríkjunum, né handhafa græna kortsins .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×