Erlent

Rússar segja móðursýkislega umfjöllun skemma fyrir samskiptum

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti. Vísir/AFP
Dimitry Peskov, blaðafulltrúi Vladimír Pútín Rússlandsforseta, segir að móðursýkisleg umfjöllun í bandarískum fjölmiðlum sé að eyðileggja samskipti ríkjanna tveggja.

Þetta kemur fram í viðtali CNN við Peskov. Segir hann að ásakanir um að Rússar hafi gert tölvuárásir á bandarískar stofnanir í aðdraganda forsetakosninganna þar í landi í nóvember síðastliðnum, standist ekki skoðun.

Peskov segir að fjölmiðlar vestanhafs verði að átta sig á því að slíkt geti einfaldlega ekki verið satt, Bandaríkin geti ekki verið svo veikburða að annað ríki geti haft slík áhrif á framvindu mála þar. 

Miklar vangaveltur hafa verið uppi síðustu misserin um tengsl Donald Trump Bandaríkjaforseta við Rússa en nú síðast kom í ljós að dómsmálaráðherrann í ríkisstjórn hans, Jeff Sessions, átti í samskiptum við rússneska ráðamenn á meðan kosningabaráttu Trump stóð en áður hafði hann sagt undir eiðstaf að slíkt hefði ekki átt sér stað.

Sessions sagði sig meðal annars frá rannsókn alríkislögreglunnar á tölvuárásum Rússa vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×