Erlent

Erlendir vígamenn sagðir reyna að flýja Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermaður beinir vopni sínu í átt að stöðu vígamanna ISIS.
Hermaður beinir vopni sínu í átt að stöðu vígamanna ISIS. Vísir/AFP
Erlendir vígamenn Íslamska ríkisins eru sagðir hafa reynt að flýja frá Mosul í Írak, þar sem stjórnarher Írak, studdir af Bandaríkjunum, reyna nú að reka samtökin á brott. Harðir bardagar standa nú yfir í vesturhluta borgarinnar, sem er þéttbýlli en austurhlutinn, sem frelsaður var í janúar.

Borgarar eru sagðir hafa komið verulega illa úti í átökunum og hafa minnst 50 þúsund flúið undan þeim. Talið er að um 750 þúsund haldi enn til á yfirráðasvæði ISIS.

Vísir/GraphicNews
Bandarískur hershöfðingi sem Reuters ræddi við segir óreiðu ríkja meðal vígamanna í borginni. Þrátt fyrir það eigi stjórnarherinn erfiða bardaga fyrir höndum.

Þrátt fyrir að vera mun færri en stjórnarliðarnir hafa vígamenn ISIS veitt harða mótspyrnu.

Tugir vígamanna eru sagðir hafa verið felldir í óvæntri næturárás á opinberar byggingar, safn og útibú Seðlabanka Íraks í borginni.

Þegar ISIS tók borgina sumarið 2014, rústuðu þeir ævafornum styttum í safninu og tæmdu útibú Seðlabankans. Sala fornminja úr safninu á svörtum mörkuðum var lengi vel ein helsta tekjulind samtakanna. Þá var stofnun Íslamska ríkisins lýst yfir úr gamalli mosku í vesturhluta Mosul og Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, var sagður hafa haldið til í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×