Erlent

Handabandið sem engin man

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Trump á fundinum á Mayflowerhótelinu.
Trump á fundinum á Mayflowerhótelinu. nordicphotos/AFP
Hvíta húsið hefur vísað á bug fullyrðingum um að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi haft einhver önnur samskipti við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum en tilfallandi á meðan á kosningabaráttunni um forsetaembættið stóð.

Greint var frá því í fjölmiðlum, meðal annars The Independent, á þriðjudaginn að Trump og Sergej Kisljak sendiherra hefðu báðir verið á Mayflower-hótelinu í Washington 27. apríl í fyrra. Trump var þar til að ræða utanríkispólitík.

Ekki er óvenjulegt að sendiherrar erlendra ríkja mæti á slíka kosningafundi til að komast að stefnu forsetaframbjóðenda. En í kjölfar ásakana um að Rússar hafi haft áhrif á kosningabaráttuna og hafi verið í sambandi við menn í kosningaherbúðum Trumps hefur þótt mikilvægt að kortleggja möguleg samskipti Trumps og rússneska sendiherrans.

Forsetinn hefur mörgum sinnum neitað öllum samskiptum en nú segja starfsmenn Hvíta hússins að margir sendiherrar hafi verið á svæðinu. Trump hafi verið í móttökunni í um fimm mínútur og síðan hafi hann haldið rakleiðis í ræðustól. Í viðtali við AFP-fréttaveituna segir Sarah Sanders, einn blaðafulltrúa Hvíta hússins, að starfsmenn muni ekki hverjum Trump heilsaði með handabandi í móttökunni. Það hafi hvorki verið á þeirra ábyrgð að bjóða gestum né kanna bakgrunn þeirra. Rússneski sendiherrann hefur ekki tjáð sig um málið.

Þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, Michael Flynn, neyddist til að draga sig í hlé þegar afhjúpað var að hann hefði leynt upplýsingum um samskipti sín við rússneska sendiherrann. Dómsmálaráðherrann Jeff Sessions sætti harðri gagnrýni þegar afhjúpað var að hann hefði hitt Kisljak tvisvar í Washington í fyrra. Hann hafði áður fullyrt að hann hefði ekki verið í samskiptum við Rússa meðan á kosningabaráttunni stóð.

Nefnd þingmanna í fulltrúadeildinni á að rannsaka fullyrðingar um samvinnu Rússa og Donalds Trump í kosningabaráttunni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×