Erlent

Reyndi að draga úr áhyggjum evrópskra embættismanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pence og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB í Brussel í dag.
Mike Pence og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB í Brussel í dag. Vísir/EPA
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, reyndi í dag að sannfæra evrópska ráðamenn um að Donald Trump og ný ríkisstjórn Bandaríkjanna vildi styrkja og bæta vinsamband Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Pence mætti miklum efasemdum meðal leiðtoga Evrópu.

Trump hefur lýst yfir stuðningi við ákvörðun Breta að yfirgefa ESB og hefur hann sagt að sambandið muni leggja upp laupana eftir að fleiri ríki yfirgefi það.

Pence sagði Trump vilja starfa með ESB að því að skapa frið og velmegun.

„Sama hver munurinn er, þá byggja heimsálfurnar okkar tvær á sömu arfleifð, sömu gildum og umfram allt, þeim sama tilgangi að skapa frið og velmegun í gegnum frelsi, lýðræði og lög. Við stöndum við þau markmið,“ sagði Pence.

Í gær lýsti Pence yfir eindrægum stuðningi Bandaríkjanna við Atlantshafsbandalagið, þar sem hann var á öryggisráðstefnu leiðtoga Evrópu í Þýskalandi.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði fundi sinn og Pence hafa verið opinn og hreinskilinn og hann hafi heyrt ýmislegt sem útskýri breyttar aðferðir ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Hann sagði svo marga nýja og óvænta hluti hafa verið sagða vestanhafs að ráðamenn í Evrópu gætu ekki látið eins og ekkert hefði breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×