Erlent

Trump sólginn í lén sem bera nafn hans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trump vill hafa vaðið fyrir neðan sig.
Trump vill hafa vaðið fyrir neðan sig. Vísir/Getty
Fyrirtæki Donald Trump Bandaríkjaforseta er skráð fyrir tæplega fjögur þúsund lénum sem bera nafn forsetans. CNN greinir frá.

Samkvæmt rannsókn CNN á skráningargögnum á eignarhaldi á vefsíðum var fyrirtæki Trump skráð fyrir alls 3.643 lénum sem báru á einhvern hátt nafn Trump. Eftir að hann bauð sig fram til forseta hélt kaupæðið áfram og tryggði fyrirtækið sér 93 vefsíður í kjölfarið.

Ekki kemur á óvart að fyrirtæki Trump á vefsíður á borð við TrumpOrganization.com og TrumpBuilding.org en svo virðist sem að Trump hafi einnig tryggt sér fjölmörg lén til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að nota þau til þess að koma slæmu orði á Trump eða fyrirtæki hans.

Má þar nefna TrumpFraud.org og TrumpScam.com sem bæði eru í eigu fyrirtækis Trump. Árið 2007 keypti Trump lénið TrumpNetwork.com til þess að undirbúa stofnun fyrirtækis sem sérhæfa átti sig í tengslamarkaðssetningu keimlíka því hvernig Herbalif er selt.

Tengslamarkaðssetningu hefur verið líkt við pýramídasvindl og svo virðist sem Trump hafi ákveðið að tryggja sig gagnvart slíkum ásökunum með því að festa sér lénin TrumpMultiLevelMarketing.com, TrumpNetworkFraud.com, TrumpNetworkPyramidScheme.com, TrumpNetworkPonziScheme.com og fimmtán aðrar svipaðar útfærslur.

Árið 2012 virðist Trump og starfslið hans hafið undirbúning fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári og tryggði Trump sér lénin VoteAgainstTrump.com, TrumpMustGo.com, og NoMoreTrump.com

Samkvæmt skráningargögnum má rekja eignarhaldið á lénunm til lögfræðiteymis fyrirtækis Trump, Trump Organization, en meirihluti lénanna vísar á auðar vefsíður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×