Viðskipti innlent

Telur að hlutabréf Icelandair séu undirverðlögð

Haraldur Guðmundsson skrifar
Svört afkomuviðvörun Icelandair Group í byrjun mánaðarins leiddi til mikillar lækkunar á hlutabréfaverði flugfélagsins.
Svört afkomuviðvörun Icelandair Group í byrjun mánaðarins leiddi til mikillar lækkunar á hlutabréfaverði flugfélagsins. Vísir/Vilhelm
Greiningardeild Arion banka telur að hlutabréf í Icelandair Group séu undirverðlögð þessa stundina. Í nýju verðmati deildarinnar eru bréfin metin á 19 krónur á hlut en þau standa nú í 16,3 krónum í Kauphöll Íslands. 

Þetta kemur fram í verðmatinu sem Vísir hefur undir höndum. Í því er bent á að þótt flugfélög eigi það til að jafna sig fyrr á sveiflum í þeirra starfsemi sé óljóst á þessum tímapunkti nákvæmlega hvenær Icelandair flýgur í gegnum sína erfiðleika. Það sé aftur á móti líklegra að flugfélagið komist úr þeim mótvindi sem hefur leitt til þess að hlutabréfin hafa fallið í verði um 26 prósent frá síðustu mánaðamótum.

Starfsmenn greiningardeildarinnar segja aftur á móti að ekki megi vanmeta óvissuna í alþjóðastjórnmálum og möguleg áhrif ferðabanns Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Það hafi og muni áfram hafa mikil áhrif á áhuga fólks á að ferðast til Ameríku. Fréttir um allt að 20 prósenta samdrátt í sölu á ferðum til Bandaríkjanna berist nú nú á sama tíma og bókunum hefur fækkað hjá Icelandair.

Greiningardeildin teiknar upp þrjár ólíkar sviðsmyndir um hvernig næstu vikur og mánuðir í rekstri félagsins gætu haft áhrif á verð bréfanna. Tvær þeirra gera ráð fyrir að þau séu undirverðlögð en í þeirri þriðju er bent á að framtíð flugfélagsins er lituð mikilli óvissu næstu tólf til átján mánuði. Fjárfestar eigi meðal annars að fylgjast vel með þróun í gengi krónunnar og ólíuverði og sýnileika flugfélagsins í leitarvélum. Spáir deildin því að krónan muni styrkjast um allt að tíu prósent á þessu ári.


Tengdar fréttir

Lykilmaður hjá Icelandair seldi bréf fyrir 130 milljónir

Framkvæmdastjóri hjá Icelandair Group seldi hlutabréf í fyrirtækinu í byrjun september. Markaðsvirði bréfanna hefur síðan þá lækkað um 40 prósent. Þremur vikum síðar seldi stjórnarmaður í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×