Körfubolti

Flautukarfa Hildar réð úrslitum í Seattle í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir.
Hildur Björg Kjartansdóttir. Vísir/Stefán
Hildur Björg Kjartansdóttir var hetja University of Texas Rio Grande Valley (UTRGV) í bandaríska háskólaboltanum í nótt.

UTRGV vann þarna 58-57 sigur á Seattle University en leikurinn fór fram á heimavelli Seattle.

Íslenski landsliðsmiðherjinn úr Stykkishólmi vann leikinn með tilþrifum á báðum endum vallarins.

Fyrst vann hún boltann í vörninni þegar þrjár sekúndur voru eftir og tók síðan sóknarfrakast og setti niður lokaskot leiksins rétt áður en lokaflautið gall.

Hildur Björg endaði leikinn með 14 stig og 8 fráköst en hún hitti úr 4 af 8 skotum sínum í leiknum og var auk þess með eina stoðsendingu, einn stolinn bolta og eitt varið skot.

University of Texas Rio Grande Valley hefur nú unnið 17 af 28 leikjum sínum á tímabilinu.

Hildur Björg er með 7,6 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í leik á leiktíðinni en hún er að spila 27,6 mínútur í leik. Hún er að taka flest fráköst í liðinu og er fjórði stigahæsti leikmaður liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×