Handbolti

Anton: Það er enginn að væla

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöllinni skrifar
Anton fagnar með félögum sínum.
Anton fagnar með félögum sínum. vísir/andri marinó
„Ég get alveg viðurkennt það, ég horfði í að vinna titla með Val. Ég hef gert það áður og það var að sjálfsögðu markmiðið,“ sagði Anton Rúnarsson, leikstjórnandi Vals, eftir sigurinn á Aftureldingu í dag.

Hann segir að Valsmenn hafi sýnt mikinn styrk um helgina í ljós þess mikla leikjaálags sem hefur verið á liðinu að undanförnu.

„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað það er mikið álag á okkar liði. En það er enginn að væla yfir því, það vilja allir spila þessa leiki. Við sýndum það svo sannarlega um helgina. Við spiluðum við tvö frábær lið og mismunandi varnir en við tækluðum þetta og hausinn var rétt skrúfaður á,“ sagði Anton.

Afturelding breytti um vörn um miðbik seinni hálfleiks. Anton kvaðst ánægður með hvernig Valsmenn leystu það.

„Mér fannst við leysa það mjög vel. Ég var alveg viðbúinn að þeir myndu spila þetta vel. Ég var búinn að undirbúa mig vel og við vorum alveg klárir fyrir þetta,“ sagði Anton.

En hvað gefa síðustu fjórir leikir, bikarleikirnir tveir og Evrópuleikirnir um síðustu helgi, Valsmönnum í framhaldinu?

„Rosalega mikið. Við höfum eytt miklum tíma saman og spilað marga leiki á stuttum tíma. Nú fer seinni hlutinn að byrja og þetta gefur okkur mikið fyrir hann,“ sagði Anton að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×