Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders, sem var mótframbjóðandi Hillary Clinton um forsetaframboð Demókrataflokksins gegn Donald Trump skaut föstu skoti að forsetanum á Twitter í dag. Sanders hefur verið mjög gagnrýninn á Trump frá því hann tók við embætti í janúar.
Trump tísti í dag þar sem hann sagði að virtist kalla eftir samstöðufundi kjósenda sinna.
„Kannski ættu þær milljónir manna sem kusu að GERA BANDARÍKIN STÓRKOSTLEG AÐ NÝJU að halda þeirra eigin samstöðufund. Hann yrði stærri en allir aðrir!“ sagði Trump á Twitter.
Öldungadeildarþingmaðurinn svaraði forsetanum í eigin tísti. Með því birti hann tvær myndir af innsetningarathöfn Trump frá því í síðasta mánuði og einungis fjögur orð.
„Þau gerðu það. Hann var það ekki.“
Tísti Bernie Sanders hefur notið töluvert meiri vinsælda en tíst forsetans. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 87 þúsund manns líkað við tíst Trump og tæplega tuttugu þúsund endurtíst því.
Hins vegar hafa rúmlega 176 þúsund manns líkað við tíst Sanders og rúmlega 71 endurtíst því.
Donald Trump hefur virst viðkvæmur fyrir því að fleiri hafi mætt á innsetningarathafnir Barack Obama, heldur en mættu á athöfn hans. Eftir að samanburðarmyndir sýndu fram á stærðarmun athafnanna sendi Trump upplýsingafulltrúa sinn Sean Spicer á fund blaðamanna þar sem hann sagði að aldrei hefðu fleiri mætt á innsetningarathöfn en nú. „Punktur.“
Trump hefur sjálfur margsinnis gagnrýnt fjölmiðla fyrir að fara ekki með rétt mál um hve margir fylgdust með athöfninni. Hér fyrir neðan má sjá hluta úr ræðu sem Trump hélt í höfuðstöðvum CIA, degi eftir insetningaathöfnina.
Erlent