Handbolti

Orri Freyr: Varnarleikurinn er lykillinn að öllum sigrum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bræðurnir Orri Freyr Gíslason og Ýmir Örn Gíslason áttu flottan leik í vörn Valsmanna sem vörðu bikarmeistaratitilinn í gær með 26-22 sigri á Aftureldingu í Laugardalshöllinni en þetta var tíundi bikarmeistaratitill Valsmanna.

Aðeins vika er síðan liðið lék tvo leiki á skömmum tíma í Áskorendabikar Evrópu í handbolta en leikirnir fóru fram í Svartfjallalandi og slógu Valsmenn RK Partizan út á heimavelli þeirra.

Guðjón Guðmundsson ræddi við þá bræðurna í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Fyrst og fremst er það kollurinn sem skilar þessu en svo var þetta frábærlega sett upp hjá þjálfurunum og það voru allir tilbúnir í þetta. Það voru allir að vinna að sama markmiðinu að vinna leikina og að komast sem lengst. Við erum með samheldinn hóp sem er tilbúinn að tækla hvaða vandamál sem er saman ,“ sagði Orri Freyr.

Sjá einnig:Umfjöllun, viðtöl og myndir: Afturelding - Valur 22-26 | Tíundi bikartitill Valsmanna

Bræðurnir gáfu ekkert eftir í varnarleiknum í Höllinni.

„Varnarleikur er lykillinn að öllum sigrum, sumir segja að sóknir vinni titla en ég er ósammála því. Það eru varnirnar sem vinna titla,“ sagði Orri en Ými þykir bardaginn í vörninni skemmtilegur.

„Það er það skemmtilegasta að vera í vörninni, þegar einhver kemur að manni og maður nær að stoppa hann. Það er æðisleg tilfinning,“ sagði Ýmir sem segir það gott að spila með bróðir sínum.

„Það er nokkuð gott að hafa hann þarna, yfirleitt hefur hann rétt fyrir sér en þó ekki alltaf. Þá hlustar maður á hann en maður er duglegur að láta hann heyra það ef hann hefur rangt fyrir sér,“ sagði Ýmir en þriðji bróðirinn varð bikarmeistari með þriðja flokk Valsmanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×