Erlent

Þúsundir Mexíkóa mótmæltu Trump

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Á skiltum mótmælenda var Donald Trump harðlega gagnrýndur fyrir viðhorf sín.
Á skiltum mótmælenda var Donald Trump harðlega gagnrýndur fyrir viðhorf sín. Vísir/Getty
Þúsundir mótmælenda gengu um götur borga víðsvegar um Mexíkó í dag, til þess að mótmæla Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Reuters greinir frá.

Mótmælendurnir gengu um göturnar með fána og skilti, þar sem Trump, ásamt forseta Mexíkó, Enrique Pena Nieto, var mótmælt á spænsku og ensku. Er forsetinn gagnrýndur fyrir að hafa ekki látið í ljós harðari andstöðu við áformum Trump, um að reisa vegg á landamærum ríkjanna tveggja.

Þá er forsetinn jafnframt sakaður um spillingu, en í síðasta mánuði sýndu kannanir að forsetinn hefði einungis stuðning um tólf prósent Mexíkana.  Enginn forseti hefur áður mælst svo óvinsæll í sögu landsins.

„Mexíkanar heimta virðingu. Við viljum byggja brýr, ekki veggi,“ stóð meðal annars á einu mótmælaskiltanna, þar sem áformum Trump var mótmælt

Trump hyggst halda áfram ótrauður við þau áform sín um að hefja uppbyggingu á vegg við landamæri ríkjanna. Í gær sagði hann að hann myndi ná kostnaði við uppbyggingu á múrnum niður, „rétt eins og hann hefði gert við önnur tilefni í forsetatíð sinni. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×