Viðskipti innlent

120 manns sóttu um stöðu markaðsfulltrúa H&M á Íslandi en starfið færist til Osló

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Margir bíða eflaust spenntir eftir því að H&M opni á Íslandi.
Margir bíða eflaust spenntir eftir því að H&M opni á Íslandi. vísir/getty
Eins og kunnugt er mun sænska verslunarkeðjan H&M opna þrjár verslanir hér á landi á árinu og því næsta. Í upphafi árs var því auglýst eftir starfsfólki en fyrirtækið var í samstarfi við Capacent á Íslandi vegna ráðningaferlisins.

 

Meðal annars var auglýst eftir verslunarstjórum, útstillingarfólki og svo markaðsfulltrúa en umsækjendur um það starf fengu tölvupóst frá Capacent á dögunum þar sem greint var frá því að forsendur starfsins hefðu breyst töluvert frá því þegar það var auglýst.

Alls sóttu 120 manns um starf markaðsfulltrúa H&M á Íslandi en í póstinum sem Capacent voru umsækjendur látnir vita af því að forsendur starfsins hefðu breyst á þann veg að nú er gert ráð fyrir því að starfsmaðurinn sé staðsettur í Noregi í eitt ár og vinni þar með markaðsteymi H&M.

Voru umsækjendur beðnir um að staðfesta að þeir hefðu enn áhuga á starfinu og vildu þar með halda áfram í umsóknarferlinu en Vísir hefur ekki upplýsingar um hvort og þá hversu margir drógu umsókn sína til baka í kjölfar þess að forsendur starfsins breyttust.

Skrifstofan er í Osló og eru launin um 500 þúsund norskar krónur fyrir árið eða um 6,7 milljónir króna á gengi dagsins í dag. Deilt niður á tólf mánuði gera það um 550 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Í tölvupóstinum til umsækjenda kemur fram að einhver aðstoð verði veitt í upphafi við að koma sér fyrir en starfsmaðurinn þurfi síðan sjálfur að standa straum af kostnaði við húsnæði.


Tengdar fréttir

H&M á Íslandi byrjar að ráða fólk

Sænska verslunarkeðjan H&M sem mun opna tvær verslanir hér á landi á þessu ári annars vegar og hins vegar á því næsta hefur samið við ráðningarfyrirtækið Capacent um ráðningar starfsfólks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×