Erlent

Trump ræðir við næsta ráðgjafa sinn í þjóðaröryggismálum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í dag rætt við fjóra einstaklinga sem koma til greina sem næsti ráðgjafi hans í þjóðaröryggismálum. Michael Flynn sagði af sér sem ráðgjafi Trump í síðustu viku eftir að upp komst um samskipti hans við Rússa.

John Bolton, fyrrverandi sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum er á meðal umsækjenda auk þriggja fyrrum hershöfðingja en það eru H.R McMaster, Robert Caslen og Keith Kellogg. Sá síðastnefndi gegnir tímabundið stöðu ráðgjafa Trump í þjóðaröryggismálum.

Robert Harward var fyrsta val forsetans. Harward hafnaði boðinu vegna persónulegra og fjárhagslegra aðstæðna, að sögn talsmanna Hvíta hússins. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum segja þó að aðalástæðan hafi verið sú að hann hafi viljað koma með eigið starfslið í Hvíta húsið sem hafi ekki verið í boði.

Þá kom David Patraeus, fyrrverandi hershöfðingi og yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, jafnframt til greina, en ekki er vitað hvers vegna hann er ekki á meðal umsækjenda.

Michael Flynn sagði af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi eftir að upp komst að hann hefði logið að varaforsetanum Mike Pence um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum áður en hann tók við stöðu ráðgjafa forseta.


Tengdar fréttir

Trump kennir fjölmiðlum um afsögn þjóðaröryggisráðgjafa

Öldungadeildarþingmenn bæði Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum þrýsta á að að ítarleg rannsókn fari fram á samskiptum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump forseta og annarra starfsmanna framboðs hans við rússnesku leyniþjónustuna.

Spurt og svarað um samskipti Flynn og Rússa

Þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta sagði af sér fyrr í vikunni vegna samskipta sinna við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×