Körfubolti

Nálgast hundraðasta sigur sinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katie Lou Samuelson og Napheesa Collier fengu stærri hlutverk í vetur.
Katie Lou Samuelson og Napheesa Collier fengu stærri hlutverk í vetur. Vísir/Getty
Kvennalið University of Connecticut setur nú nýtt met í bandaríska háskólakörfuboltanum með hverjum sigurleik og liðið er nú farið að nálgast þriggja stafa tölu í sigurgöngunni.

University of Connecticut, oftast kallað UConn, vann nú síðast 97-69 sigur á Temple en þetta var 96. sigurleikur liðsins í röð.

Gamla metið átti kvennalið UConn líka, en liðið vann 90 leiki í röð frá 2008 til 2010.

UConn hefur orðið bandarískur meistari undanfarin fjögur ár og í fyrravetur varð liðið bandarískur háskólameistari án þess að tapa leik, vann þá alla 38 leiki tímabilsins.

Liðið tapaði síðast 17. nóvember 2014 en UConn tapaði þá á móti Stanford í framlengdum leik. Það var aðeins annar leikur liðsins á tímabilinu og liðið tapaði ekki leik eftir það.  

Yfirburðir liðsins í sigurgöngunni sjást ekki síst á því að aðeins tveir leikjanna hafa unnið með minna en tíu stigum.

Það sem gerir það enn merkilegra að UConn hafi unnið tuttugu fyrstu leiki sína á þessu tímabili er það að liðið missti sína þrjá bestu leikmenn síðasta vor.

Þær Breanna Stewart, Moriah Jefferson og Morgan Tuck voru allar valdar númer eitt til þrjú í WNBA-nýliðavalinu og eru allar að spila í WNBA-deildinni.

Liðið hefur ekki aðeins náð að halda velli eftir þennan missi heldur hefur liðið ekki stigið feilspor með nýjum leikmönnum í stórum hlutverkum. Fyrsti leikurinn vannst reyndar bara með tveimur stigum en síðan hafa flestir leikjanna unnist með yfirburðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×