Körfubolti

Hrun í lokin og annað tapið í röð hjá Martin og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með íslenska landsliðinu.
Martin Hermannsson í leik með íslenska landsliðinu. vísir/bára dröfn
Martin Hermannsson og félagar í Charleville-Mézieres þurftu að sætta sig við svekkjandi tap á heimavelli í kvöld í frönsku b-deildinni í körfubolta.

Charleville-Mézieres var sex stigum yfir, 76-70, þegar tvær mínútur voru eftir en tapaði lokamínútunum 12-4 og þar með leiknum 80-82.

Þetta var annar tapleikur liðsins í röð og sá fjórði í síðustu sex leikjum en Charleville-Mézieres hefur verið að missa flugið að undanförnu eftir mjög góða byrjun á tímabilinu.

Martin Hermannsson var næststigahæstur í sínu liði með 16 stig auk þess að taka 6 fráköst og gefa 3 stoðsendingar.

Martin tapaði hinsvegar sex boltum og hitti aðeins úr 1 af 5 þriggja stiga skotum sínum. Hann hefur því oft spilað betur en í kvöld.

Charleville-Mézieres vann þrjá fyrstu leikhlutana og var sjö stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 64-57. Martin var með 14 af 16 stigum sínum og allar þrjár stoðsendingarnar í fyrstu þremur leikhlutunum.

Haukur Helgi Pálsson og félagar í Rouen töpuðu með þrettán stigum á útivelli á móti Evreux, 87-74. Haukur Helgi var næststigahæstur í sínu liði með 14 stig auk þess að taka 4 fráköst og gefa 4 stoðsendingar.  Haukur Helgi hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×