Erlent

Auka stuðning við heimamenn gegn ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir SDF á göngu nærri Raqqa.
Meðlimir SDF á göngu nærri Raqqa. Vísir/AFP
Bandalag vopnaðra hópa í Sýrlandi hefur fengið brynvarðar bifreiðar frá Bandaríkjunum til að nota í bardögum gegn vígamönnum Íslamska ríkisins. Syrian Democratic Forces eða SDF segja þetta til marks um aukinn stuðning frá Bandaríkjunum, en líklegt þykir að aðstoðin muni reiða yfirvöld í Tyrklandi.

Stærsti hópur SDF eru kúrdíski hópurinn YPG en hann hefur tengsl við Verkamannaflokk Kúrda í Tyrklandi, sem yfirvöld þar skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Sýrlenskir Kúrdar hafa verið helstu bandamenn Bandaríkjanna gegn ISIS í Sýrlandi og hafa rekið vígamenn samtakanna frá stórum hluta landsins, með stuðningi frá sérsveitum og loftárásum Bandaríkjanna.

Nú sækja SDF gegn Raqqa, höfuðborg ISIS, og undirbúa að loka síðustu leiðinni úr borginni, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

„Við höfum ekki fengið stuðning í þessu formi áður. Við höfum fengið létt vopn og skotfæri,“ segir Talal Silo, talsmaður SDF, við Reuters. „Það eru ummerki um meiri stuðning frá nýrri ríkisstjórn Bandaríkjanna.“ Þó tók hann fram að ekki væri um margar bifreiðar að ræða, án þess að gefa upp fjölda þeirra.

Markmið SDF er að umkringja Raqqa en fyrst ætla þeir að hertaka veginn á milli borgarinnar og Deir al-Zor-héraðs. ISIS-liðar stjórna því nánast öllu og hafa á undanförnum vikum lagt mikið kapp í að ná tökum á nokkrum smáum svæðum sem stjórnarher Bashar al-Assad stjórnar enn. Með því að ná þeim vegi myndi SDF veita ISIS þungt högg.


Tengdar fréttir

„Þeir óttast raddir okkar“

Fjöldi kvenna hafa gengið til liðs við YPG-sveitir Kúrda í Sýrlandi til að hefna fyrir framferði ISIS gagnvart konum.

Kúrdar sækjast eftir loftvarnarvopnum

Yfirvöld í Rússlandi segja ákvörðun Bandaríkjanna að draga úr takmörkunum á vopnaveitingum til ýmissa hópa í Sýrlandi vera beina ógn gegn flugmönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×