Innlent

Vetur konungur minnir á sig á höfuð­borgar­svæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu ættu að hafa það í huga þegar þeir halda til vinnu eða fara í skólann núna í morgunsárið að það snjóaði töluvert í nótt og gæti umferðin því gengið hægar fyrir sig en vanalega. Ekki hefur snjóað mikið í Reykjavík í janúar og verið tiltölulega hlýtt undanfarna daga en vetur konungur minnir á sig nú með tilheyrandi kulda og snjó.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að það verði víða rólegt veður í dag, þó að dálítil slydda eða snjókoma verði í fyrstu. Í kvöld bætir hins vegar í vind og verður hvassast á Vestfjörðum en austan- og norðaustanáttin getur verið varasöm enda fylgir þessu nú snjókoma eða él.

Þá má búast við austan strekkingi og snjókomu sunnan-og vestanlands í nótt en austanvert landið sleppur betur á morgun. Þó gera spár ráð fyrir því að þar fari að snjóa annað kvöld en þá mun létta til á Suður-og Vesturlandi. Kólnar smám saman og víða vægt frost á morgun.

Veðurhorfur á landinu:

Breytileg átt 3-10 m/s. Slydda eða rigning með köflum, en sums staðar snjókoma. Dregur úr úrkomu með morginum og víða þurrt seinnipartinn. Hiti nálægt frostmarki. Gengur í hvassa norðaustanátt á Vestfjörðum í kvöld með éljum.

Austlæg átt, 5-13 og slydda eða snjókoma S- og V-lands í nótt og á morgun, NA 10-18 á Vestfjörðum og snjókoma, en hægari um landið A-vert og úrkomulítið fram á kvöld. Lægir og styttir þá upp SV-til. Lengst af vægt frost.

Á föstudag:

Austan og norðaustan 5-13 m/s, hvassast á Vestfjörðum og við SA-ströndina. Snjókoma með köflum víða um land og frost 0 til 5 stig, en slydda með suðurströndinni og hiti rétt ofan frostmarks.

Á laugardag:

Norðan 5-13. Snjókoma austanlands, él norðantil, en bjartviðri á Suðvesturlandi. Frost 2 til 7 stig.

Á sunnudag:

Austan 5-13 m/s, hvassast syðst. Sums staðar dálítil él við S-ströndina, en birtir upp á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 14 stig, kaldast í innsveitum NA-til.

Á mánudag:

Austlæg átt, 8-18, hvassast syðst. Þurrt að kalla norðanlands, annars rigning eða slydda, talsverð úrkoma á Suðausturlandi. Hiti 1 til 4 stig sunnantil, en annars vægt frost.

Á þriðjudag:

Ákveðin norðaustanátt. Snjókoma um landið N- og A-vert og sums staðar slydda við ströndina, en þurrt S- og V-lands. Frostlaust við ströndina, en annars vægt frost.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir fremur milda norðaustanátt með slyddu- eða snjóéljum, en áfram þurrt SV-til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×