Sport

Fimleikasambandið fundaði með forystu ÍSÍ: Komum okkar gagnrýni á framfæri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fimleikasamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að forsvarsmenn sambandsins funduðu með Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra, vegna gagnrýni fimleikasambandsins á úthlutun úr Afrekssjóði 2017.

Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ, er verulega ósátt við upphæðina sem hennar samband fékk en hún lét óánægju sína í ljós í viðtali við íþróttadeild í síðustu viku.

Sjá einnig:Forseti ÍSÍ sakaður um hroka og dónaskap: „Maðurinn er að hóta þessum samböndum“

Körfuboltasambandið gagnrýndi einnig úthlutunina en aðspurður um viðbrögð KKÍ og FSÍ sagði Lárus Blöndal að þau „væru ekki til þess fallin að þau fengju meira í næstu úthlutun.“

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, var ekki sáttur við hvernig forsetinn orðaði þetta eins og hann kom inn á í viðtali í Bítið á Bylgjunni í morgun en Lárus sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis þar sem hann biðst afsökunar á orðum sínum.

Fimleikasambandið er sátt eftir fundinn í dag en kallar eftir meira gegnsæi í vinnubrögðum um leið og það segist bera fullt traust til þeirra sem sjá um að úthluta úr Afrekssjóði.

Yfirlýsing FSÍ:

„Í ljósi ummæla forseta ÍSÍ í íþróttafréttum á Stöð 2 í gærkvöldi, vill FSÍ taka það fram að skilningur sambandsins á þeim, er að þar hafi forseti átt við að okkar afstaða breytti engu um hugsanlega úthlutun í framtíðinni þar sem sú úthlutun mun fara fram eftir nýjum reglum sem nú eru í smíðum.  Áætlað er að leggja fram þær reglur til samþykktar á næsta þingi ÍSÍ sem fram fer í maí.

 

Við berum fullt traust til forseta ÍSÍ og þess vinnuhóps sem skipaður var, sem vinnur að nýjum og endurbættum úthlutnarreglum Afrekssjóðs.

Það er fagnaðarefni fyrir íþróttahreyfinguna í heild sinni að loksins sé komið aukið fjármagn í sjóðinn sem gerir okkur öllum kleift að standa betur straum af þeim kostnaði sem hlýst af þáttöku í erlendu mótahaldi.

 

FSÍ átti mjög upplýsandi fund með forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ í dag þar sem FSÍ kom sínum sjónarmiðum og gagnrýni vel á framfæri og var ekki hægt að túlka fundinn á annan hátt en að þeim hafi verið vel tekið.

 

Eftir sem áður kallar FSÍ eftir rökstuðningi og gagnsæi í vinnubrögðum og heldur áður framkomnum sjónarmiðum á lofti.“


Tengdar fréttir

Góð viðbót en mikill vill alltaf meira

Ríflega 150 milljónum var úthlutað úr afrekssjóði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í gær en enn þá er eftir að úthluta 100 milljónum þegar nýr tímamótasamningur tekur gildi. Handboltinn fékk mest en þrátt fyrir hækkun eru ek




Fleiri fréttir

Sjá meira


×