Innlent

Vara við stormi um landið norðvestanvert

Samúel Karl Ólason skrifar
Vindur verður yfirleitt hvass af suðri í dag um allt land, þar sem hlýskil hreyfast norður fyrir landið.
Vindur verður yfirleitt hvass af suðri í dag um allt land, þar sem hlýskil hreyfast norður fyrir landið. Nullschool
Veðurstofa Íslands varar við stormi á norðvestanverðu landinu og miðhálendinu í dag. Vindur verður yfirleitt hvass af suðri í dag um allt land, þar sem hlýskil hreyfast norður fyrir landið. Sums staðar mun hiti mælast í tveggja stafa tölum. Víða um land mun rigna í dag.

Í kvöld mjakast þó kuldaskil austur fyrir landið og mun kólna ört í kjölfarið. Úrkoma verður éljakennd en létta mun til smám saman fyrir austan. Þá er von á verulegum hitasveiflum í næstu viku.

„Á morgun blæs hvöss suðvestanátt með éljum hér og þar, en bjartviðri eystra og hiti verður ekki fjarri frostmarki. Í vikunni koma síðan lægðirnar hver af annarri með hvössum og úrkomusömum vindum og verulegum hitasveiflum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðvestan strekkingur og él, en lægir talsvert um hádegi. Gengur í hvassa sunnanátt með slyddu eða rigningu um kvöldið og hlýnar, en stíf norðaustanátt og snjókoma norðan- og vestanlands og áfram vægt frost þar.

Á miðvikudag: Snýst í minnkandi suðvestanátt með éljum og kólnandi veðri.

Á fimmtudag: Suðaustlæg átt og dálítil snjókoma eða slydda sunnan til og hlýnar í veðri, en þurrt að mestu og talsvert frost fyrir norðan.

Á föstudag og laugardag: Líkur á suðlægum áttum með skúrum eða éljum. Hiti um og yfir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×